Fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., braut á alvarlegan hátt gegn samkeppnislögum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Byko. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Eins og VB.is greindi frá í gær hafa fyrrverandi eigendur Húsasmiðjunnar undirritað sátt við Samkeppniseftirlitið vegna málsins. Því telst rannsókn Samkeppniseftirlitsins, sem staðið hefur frá 8. mars 2011, lokið.

Í samráðinu fólust regluleg samskipti við Byko um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verðið á svonefndum grófum byggingavörum (t.d. timbri, steinull og stáli), samráð við Byko um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum og samráð við Byko um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á pallaefni á aðalsölutíma þeirrar vöru.

Einnig felst í samráðinu að hafa gert sameiginlega tilraun með Byko til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru. Þá braut Húsasmiðjan gegn skilyrðum sem sett voru til að vinna gegn því að sameiginlegt eignarhald Byko og Húsasmiðjunnar í Steinullarverksmiðjunni hf. myndi takmarka samkeppni.

Í tilkynningunni segir að brotin hafi verið viðurkennd og því hefur tekist sátt um málið. Fyrri rekstraraðila Húsasmiðjunnar er gert að greiða 325 milljóna króna sekt. Brotin tengjast þó ekki á neinn hátt nýjum eigendum Húsasmiðjunnar. Nýja Húsasmiðjan hyggst þó grípa til ráðstafana til þess að efla samkeppni.