Þrátt fyrir efnahagsuppgang og auknar skatttekjur var rekstur A-hluta sveitarfélaga landsins í járnum á síðasta ári, rétt eins og fyrri ár. Í síðustu uppsveiflu, árin 2006 og 2007, voru A-hlutar sveitarfélaganna reknir með drjúgum afgangi. Rekstrarútgjöld A-hluta sveitarfélaganna voru hins vegar 2,4 milljörðum króna umfram rekstrartekjur í fyrra samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar.

A-hlutar sveitarfélaganna ná til þess reksturs sem fjármagnaður er með skatttekjum. Félög á borð við orkuveitur eru því ekki með í þessum tölum. Árin 2011 til 2013 virtist sem A-hlutar sveitarfélaga landsins væru að rétta úr kútnum eftir kreppuna en undanfarin tvö ár hefur bakslag komið í rekstrarbatann eins og sést á meðfylgjandi myndriti.

Staða sveitarfélaganna er enn verri sé tekið mið af þjóðhagsreikningastöðlum sem Hagstofan fylgir. Þar eru fjárfestingar sveitarfélaganna flokkuð sem útgjöld, og samkvæmt þeirri skilgreiningu var 13 milljarða króna halli á rekstri A-hluta sveitarfélaganna á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .