Ef raunvaxtastig á Íslandi verður viðvarandi undir 3,5%, sem ekki er ólíklegt ef langt er í afnám hafta, gæti reynst nauðsynlegt að lækka ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna. Í raun er þeim lögum samkvæmt skylt að skerða réttindi ef ávöxtun er það lengi undir þessu viðmiði að það hafi óæskileg áhrif á tryggingafræðilega stöðu þeirra.

Talsmenn lífeyrissjóðanna hafa lengi sagt að það sem helst standi þeim í vegi séu gjaldeyrishöftin, sem hafi mjög óæskileg áhrif á innlenda eignamarkaði. Ávöxtunarkrafa á skuldabréf hefur verið kýld niður úr öllu valdi og geta lífeyrissjóðirnir ekki lengur keypt íbúðabréf nema með því að bókfæra töluvert tap vegna hinnar svokölluðu 3,5%-reglu.

Prósentutalan 3,5% er vafalaust mikilvægasta talan í íslensku lífeyrissjóðakerfi og þar með er hægt að færa fyrir því rök að hún sé sú mikilvægasta í fjármálakerfinu hér á landi. Lögbundin uppsöfnuð réttindi sjóðsfélaga gera ráð fyrir því að raunávöxtun verði að vera á bilinu 3,0%-4,0% og í reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda er beinlínis mælt fyrir um 3,5% viðmið.

Áhrifa þessarar tölu gætir víða hjá lífeyrissjóðunum, þeir þurfa að afvaxta skuldbindingar sínar á fastri 3,5% raunkröfu og eign þeirra í verðbréfum með föstum vöxtum eru bókfærð á fastri 3,5% raunkröfu, svo dæmi séu tekin. Allt kerfið miðar við að til lengri tíma litið nái sjóðirnir 3,5% raunávöxtun. Ef það tekst ekki verður annað hvort að minnka réttindi sjóðsfélaga eða hækka iðgjöld.

Ítarlega er fjallað um ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.