Samkeppnishæfnin er lykilatriði bæði fyrir iðnaðinn og hagkerfið allt. Segja má að það séu ákveðnar viðvörunarbjöllur á lofti. Það hefur ekki verið mikill vöxtur í gjaldeyristekjum og útflutningi iðnaðar undanfarin sem ber þá merki þess að samkeppnishæfnin sé að einhverju  leyti  löskuð gagnvart erlendum keppinautum,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. „Vöxtur hagkerfisins er að færast yfir í innlenda eftirspurn. Þá er áleitin spurning núna, hvernig við ætlum að skapa gjaldeyristekjur til þess að byggja undir hagvöxt framtíðarinnar. Ég held að það verði ekki gert nema með sterkri samkeppnishæfni og vexti fleiri sviða útflutningstekna heldur en hefur verið.“ Gjaldeyristekjur íslensks iðnaðar drógust saman um 14% á árunum 2013-2017 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins.

Mestu munar þar um samdrátt í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð og framleiðslutengdri þjónustu sem dregist hefur saman um 85%, en útflutningstekjur geirans lækkuðu úr 59 milljörðum króna í 9 milljarða á tímabilinu. Ingólfur segir að sterkt gengi krónunnar og aukin umsvif í þessari atvinnugrein innanlands kunni að eiga þátt í þessum samdrætti  útflutningstekna greinarinnar.   „Það er áhyggjuefni hvað dregið hefur úr gjaldeyristekjum á þessu sviði hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis. Við viljum að þau séu öflug og með alþjóðlega starfsemi en  þjónusti ekki bara innlendan markað,“ segir Ingólfur. „Vægi iðnaðarins er talsvert þegar  litið er á gjaldeyristekjur, landsframleiðslu og vinnumarkað. Þegar maður lítur fram á við held ég að það hljóti að vera mjög stór þáttur í þessum vexti sem við þurfum að byggja upp.“

Samkeppnishæfni lykilatriði

Samtök iðnaðarins hafa bent á í nýlegri skýrslu um samkeppnishæfni Íslands að bæta starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja með því að efla menntakerfið, styrkja innviði  samfélagsins á borð við vega- og raforkukerfi landsins til að skjóta styrkari stoðum undir áframhaldandi vöxt  hagkerfisins, efla starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og að efla nýsköpun. Þá er bent á að fjölbreytileiki sé mikilvægur til þess að styrkja betur  útflutningsatvinnuvegina, bæði hvað varðar fjölda greina og fjölbreytileika innan hverrar greinar. „Ætti fjölbreytileiki á þessu sviði að skila sér í stöðugra starfsumhverfi fyrirtækja þegar litið er til framtíðar,“ segir í greiningunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .