Útflutningur stærsta hagkerfis Evrópu, Þýskalands, var 10% minni í júlí en í sama mánuði fyrir ári samkvæmt nýjum tölum þýsku hagstofunnar. Um er að ræða mestu minnkun milli ára síðan árið 2009. Af þessum sökum minnkaði viðskiptaafgangur Þýskalands um 2 milljarða evra milli mánaða.

Þetta eru ekki einu slæmu fréttirnar úr efnahagslífi Þýskalands, en vísitala iðnframleiðslu minnkaði um 1,5% í júlí. Minnkunin milli mánaða var sú mesta síðan árið 2014. Markaðsaðilar höfðu búist við 0,2% aukningu vísitölunnar.

Slæm tíðindi af efnahag Þýskalands þurfa í raun ekki að koma á óvart miðað við stöðuna í heimsmálunum. Þýskaland á meira undir útflutningi en flest önnur stór hagkerfi, og hafa Þjóðverjar því fundið mjög fyrir áhrifum hægagangsins í Kína, vandamálum ol- íuframleiðsluríkja og ýmissa pólit- ískra áhættuþátta. Þjóðverjar hafa haft jákvæðan viðskiptaafgang mörg undanfarin ár, en það sem af er þessu ári hefur afgangurinn verið mun minni heldur en í fyrra.

Spáð auknu atvinnuleysi

Að mörgu leyti hefur Þýskaland dregið áfram hagvöxt á evrusvæðinu undanfarin ár. Hagvöxtur í Þýskalandi var talsvert umfram meðalhagvöxt ríkja evrusvæðisins á árunum 2012- 2014. Atvinnuleysi hefur einnig verið mun lægra en í öðrum ríkjum evrusvæðisins og er nú minna en helmingur þess sem það var að meðaltali á árunum 2002-2006.

Núna getur Þýskaland hins vegar varla talist vera efnahagslegur dráttarvagn evrusvæðisins. Í ár er spáð 1,6% hagvexti í landinu sem er í takt við meðalvöxt á evrusvæðinu, en á sama tíma er spáð yfir 2% hagvexti á Spáni svo dæmi sé tekið. Samkvæmt spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mun atvinnuleysi í Þýskalandi aukast lítillega á næsta ári, úr 4,6 prósentum í 4,7 prósent. Á sama tíma er því spáð að atvinnuleysi í Grikklandi, Frakklandi, á Spáni og Ítalíu haldi áfram að minnka.

Þótt enn sé búist við einhverjum hagvexti í Þýskalandi á yfirstandandi ári og því næsta segir það ekki alla söguna. Fólksfjölgun í Þýskalandi er nefnilega umtalsvert meiri en í öðrum ríkjum Evrópusambandsins, meðal annars vegna mikillar fjölgunar flóttamanna. Spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gerir því ráð fyrir minni hagvexti á mann í Þýskalandi en að meðaltali á evrusvæðinu á yfirstandandi ári. Samkvæmt spá framkvæmdastjórnarinnar frá því í vor er búist við því að framleiðsluslaki í Þýskalandi aukist úr 0,3% árið 2015 í 0,6% í ár. Á sama tíma er búist við því að slakinn minnki úr 1,7% í 1,1% á evrusvæðinu í heild.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .