Fiskútflytjandi í Víetnam hefur gert áætlanir um að breyta vatnakarfa í lífefnaeldsneyti (biofuel) til að knýja dísilvélar. Gert er ráð fyrir að verksmiðjuframleiðsla á eldsneytinu hefjist á næsta ári eftir því sem ríkisrekna fréttastofan Vietnam News Agency hafði eftir talsmanni fyrirtækisins í síðustu viku.

Vatnakarfaútflytjandinn Agifish segist hafa fengið samþykki yfirvalda til að reisa verksmiðju á suðurhluta Mekong svæðisins, An Giang, á næsta ári. Þar eigi að vera hægt að framleiða 10 milljónir lítra af eldsneyti á ári.

"Við höfum gert tilraunir síðan 2004 í rannsóknastofu í Ho Chi Minh borg. Þær sýna að lífefnaeldsneyti sem unnið er úr karfa sé mjög gott," segir Ho Xuan Thien, yfirverkfræðingur tæknideildar fyrirtækisins. "Við höfum fengið grænt ljós frá yfirvöldum til að verksmiðjuframleiða eldsneyti á árinu 2007 og til að byggja verksmiðju til framleiðslu á 10 þúsund tonnum á ári. Eldsneytið verður notað til að keyra dísilvélar á innanlandsmarkaði."

Talsmaðurinn segir að fyrirtækið hafi fundið leið til að framleiða um 1 lítra af olíu úr hverju kílógrammi af fitu úr vatnakarfa. Olían hefur þegar verið prófuð til að keyra deilur fiskræktarstöðva.

Víetnamar ráðgera að framleiða 500.000 tonn af vatnakarfa á þessu ári og 700.000 tonn á árinu 2007. Stærsti hlutinn fer til útflutnings til Bandaríkjanna og Evrópu.

Mikill vöxtur er nú í efnahagslífinu í Víetnam, og nam hann 8,4% í fyrra. Miklar olíu og gaslindir eru á hafsbotni úti fyrir ströndum landsins. Skortur á hreinsistöðvum í landi valda því þó að Víetnamar eru álíka háðir sveiflum á heimsmarkaðsverði á olíu eins og aðrir. Hins vegar vonast menn til að hægt verði að framleiða ódýrari olíu til að knýja dísilvélar með því að blanda saman fiskolíu og notaðri matarolíu sem safnað verður saman hjá veitingahúsum.