Víetnamski veitingastaðurinn Mi Bowls opnar á Kúmen í Kringlunni á næstu vikum. Á bak við staðinn eru þrjár frænkur sem eiga ættir að rekja til Víetnam, en þær hafa búið hér á landi frá blautu barnsbeini. Þær Ellen, Jana og Stína eru spenntar fyrir opnun staðarins og vonast eftir að geta opnað um næstu mánaðamót.

„Við höfum stundum átt í vandræðum með að finna veitingastað sem hentar fjölskyldunni, en við eigum allar tvö börn undir grunnskólaaldri. Við sáum auglýstan lausan bás á Kúmen og ákváðum að slá til og opna okkar eigin stað,“ segir Jana, sem starfar nú sem túlkur og ökukennari.

Reynslumiklar rekstarkonur

Eins og áður segir er Mi Bowls víetnamskur matur, en Mi eru núðlur á víetnömsku. Eins og nafnið gefur til kynna er lögð áhersla á núðlurétti. Í stuttu máli skiptist matseðillinn í tvennt. Annars vegar núðluskálar, þar sem viðskiptavinir búa til sína eigin skál og velja sér prótein, tegund af núðlum, sósu og grænmeti, og hins vegar núðlusúpur. Þar að auki eru víetnömsk íste og ískaffi á matseðlinum.

„Við sjáum tækifæri í því að opna víetnamskan skyndibitastað þar sem þú getur fengið hollan og ferskan mat á fljótlegan máta. Við vinnum með íslensk hráefni og notum gæða kryddjurtir í okkar matargerð,“ segir Stína, en hún rak veitingastaðinn Viet Express á Háaleitisbraut um tíma áður en hún seldi staðinn fyrir nokkrum árum síðan.

Auk þess að hafa rekið veitingastað rekur Stína nú snyrtistofuna Lótus í Nóatúni. Þá hefur Ellen rekið blómabúðina Árbæjarblóm í fjögur ár við góðan orðstír, en hún starfaði í búðinni í þrjú ár þar á undan. Þær hafa því mikla reynslu af rekstri fyrirtækja hér á Íslandi, sem þær segja hafa gengið vel til þessa.