Drykkjarvöruframleiðandinn Vífilfell afhenti í dag Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík og fleiri góðgerðar- og líknarfélögum vörur frá fyrirtækinu að andvirði alls um 2 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vífilfell.

„Vífilfell hefur ákveðið að gefa viðskiptavinum fyrirtækisins engar jólagjafir í ár en gefa þess í stað vörur sem samsvara andvirði jólagjafanna til góðgerðar- og líknarfélaga,“ segir í tilkynningunni.

Félögin deila vörunum síðan út til skjólstæðinga sinna. Vífilfell hefur styrkt góðgerðar- og líknarfélög fyrir jólin undanfarin ár en að samkvæmt tilkynningu félagsins er framlagið í ár hærra en nokkru sinni.

Meðal þeirra sem fá vörur frá Vífilfelli fyrir jólin eru Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík og á Akranesi og Akureyri, Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf Krossins, Velferðarsjóður Suðurnesja, Hjálpræðisherinn, Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, Líknarsjóður Árbæjarkirkju og Kvenfélagið Hringurinn.

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, segir í tilkynningunni að oft  hafi verið þörf á stuðningi við hjálparstofnanir en nú fyrir jólin sé það alger nauðsyn.