© Aðsend mynd (AÐSEND)

Vífilfell hefur ákveðið að hætta framleiðslu á gosdrykknum Fresca. Sala á drykknum hefur dregist saman undanfarin ár og er hlutdeild Fresca á gosdrykkjamarkaðnum nú aðeins 0,2%. Það borgar sig því ekki að halda framleiðslunni áfram.

Fram kemur í tilkynningu að Fresca er einn elsti sykurlausi drykkurinn á markaðnum en hann hefur verið framleiddur síðan árið 1968. Lengi vel var Fresca eini gosdrykkurinn í boði fyrir fólk sem hvorki gat né vildi drekka sykrað gos en framboð sykurlausra gosdrykkja er nú mjög mikið og Fresca á ekki jafn mikið upp á pallborðið og áður. Síðan þá eða í ríflega tvo áratugi hefur Fresca verið í hægri hnignun. Um aldamótin var reynt að rífa hann upp með stórri auglýsingaherferð og tvöfaldaðist salan þá tímabundið. Síðan þá hefur neysla drykkjarins minnkað ár frá ári.