Coca-Cola Iberian Partners, Coca-Cola Enterprises og Coca-Cola Erfrischungsgetränke AG hafa í dag kynnt samkomulag sem felur í sér samruna reksturs félaganna þriggja. Sameinað félag, sem fær nafnið Coca-Cola European Partners Plc, verður stærsti einstaki átöppunaraðili heims á drykkjarvörum Coca-Cola fyrirtækisins.

Vífilfell hf. verður hluti af nýja fyrirtækinu í gegnum eignarhald hins spænsk-ættaða félags Coca Cola Iberian Partners Group. Vífilfell mun, sem hluti af stærsta sjálfstæða Coca-Cola átöppunaraðila heims, hafa aðgang að meiri þekkingu og reynslu í framleiðslu drykkjavara en það hefur nokkurn tíma áður haft í sögu sinni, en fyrirtækið rekur sögu sína hér á landi aftur til ársins 1942. Aukin áhersla verður á fjárfestingar hér á landi, breytilegar þarfir neytenda og vöxt og viðgang fyrirtækisins.

Vífilfell framleiðir og dreifir vörum Coca-Cola fyrirtækisins á Íslandi í gegnum 2.300 ólíka dreifingaraðila innanlands. Hjá fyrirtækinu eru unnin 188 heilsársstörf, það starfrækir tvær verksmiðjur og selur breiða línu af drykkjavörum sem inniheldur gos- og vatnsdrykki, bjór, léttvín og sterkt áfengi. Alls ná vörur fyrirtækisins til ríflega einna og hálfrar milljóna neytenda á Íslandi, en þar af eru 1,2 milljónir erlendir ferðamenn.