*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 21. desember 2007 13:34

Vífilfell og Domino's semja um áframhaldandi samstarf

Ritstjórn

Forsvarsmenn Vífilfells og Domino's á Íslandi skrifuðu í dag undir samstarfssamning til þriggja ára. Fyrirtækin hafa unnið saman frá árinu 1993 en samningurinn sem skrifað var undir nú er að öllum líkindum stærsti samningur milli gosdrykkjaframleiðanda og einstakrar skyndibitakeðju sem gerður hefur verið á Íslandi.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að Vífilfell og Domino's séu markaðsleiðandi hvort á sínu sviði hér á landi. Á heildarmarkaði fyrir gos og vatn hefur Vífilfell ríflega 60% markaðshlutdeild auk þess sem meira en helmingur allra gosdrykkja sem seldir eru hér á landi er undir Coca-Cola vörumerkinu. Domino's er ein stærsta keðjan á skyndibitamarkaðnum á Íslandi með 14 verslanir, þar af 11 á höfuðborgarsvæðinu.

Ásdís Höskuldsdóttir, framkvæmdastjóri Domino segir í tilkynningunni: „Það er okkur sönn ánægja að halda áfram samstarfi við Vífilfell enda hafa Íslendingar sýnt að þeir eru ánægðir með vörur fyrirtækisins. Coca-Cola er með yfirburðastöðu þegar kemur að því að velja gosdrykk með mat og í hugum margra eru Kók og Domino's pizza óaðskiljanleg tvenna.“

„Það er engin tilviljun að Domino's hefur náð svo afgerandi stöðu á íslenska skyndibitamarkaðnum. Fyrirtækið hefur frá upphafi boðið upp á trausta þjónustu og góða vöru og með slíkum fyrirtækjum viljum við starfa. Þessi samningur mun án efa gera bæði Vífilfelli og Domino's kleift að vaxa og dafna og halda áfram að vera í fararbroddi á sínu sviði á Íslandi næstu ár,“ sagði Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells.