Vífilfell hf. sem meðal annars hefur séð um sölu og framleiðslu á drykkjum Coca-Cola hér á landi, hefur tekið upp nafnið Coca-Cola European Partners Ísland ehf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Breytingarnar ættu ekki að hafa nein áhrif á viðskiptavini, en þær munu helst gera vart við sig á opinberum vettvangi, til að mynda í kynningarefni, bréfsefni og í opinberum gögnum. Félagið verður áfram á sömu kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri.

Nafnbreytinguna má rekja til stofnunnar Coca-Cola European Partners plc. sem var stofnað eftir samruna Coca-Cola Enterprises Inc., Coca-Cola Iberian Partners S.A og Coca-Cola Erfrischungsgetränke. Þetta nýja félag er stærsta sjálfstæða framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki Coca-Cola í heimi, en það festi kaup á Vífilfelli fyrr á þessu ári.

Samsteypan hefur gert þessa nafnabreytingu á öllum 13 mörkuðum sem það starfar á. Fyrir lok þessa árs munu öll fyrirtæki undir hatti CCEP fá nafnið Coca-Cola European Partners. Samkvæmt fréttatilkynningunni á aftur á móti að heiðra áfram Vífilfellsnafnið, sem á sér næstum 75 ára sögu hér á landi.