Vífilfell, sem framleiðir m.a. Coca-Cola á Íslandi, hefur verið tekið yfir af evrópska fyrirtækinu Coca-Cola European Partners, CCEP, að því er kemur fram í tilkynningu. CCEP er stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og er nú með starfsemi í 13 löndum í Vestur-Evrópu.

CCEP framleiðir, dreifir og markaðssetur drykkjarvörur til yfir 300 milljón neytenda í Vestur-Evrópu. Hjá fyrirtækinu starfa um 25 þúsund manns og voru áætlaðar tekjur fyrir árið 2015 um 11 milljarðar evra, andvirði um 1.500 milljarðar íslenskra króna.

Vífilfell var stofnað sem fjölskyldufyrirtæki árið 1942 af Birni Ólafssyni ráðherra. Höfuðstöðvar þess hafa alla tíð verið í Reykjavík og eru starfsmenn Vífilfells nú um 230 talsins.

Í tilkynningunni er haft eftir Carlos Cruz, forstjóra CCEP á Íslandi og fyrrverandi forstjóra Vífilfells að hann sé spenntur yfir þeim tækifærum sem séu framundan. Þú þegar fyrirtækið sé orðið hluti af stóru sameinuðu fyrirtæki hafi það sveigjanleika, stærðarhagkvæmni og nýsköpunarkraft til að skapa vöxt og fá fleiri viðskiptavini og neytendur til að velja vörumerki fyrirtækisins.