*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 16. mars 2018 09:16

Vigdís: „Ánægð með fljúgandi start“

Oddviti Miðflokksins er inni í borgarstjórn samkvæmt nýrri könnun en hún væntir þess að fylgið stóraukist.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins í Reykjavík er ánægð með að flokkurinn mælist með mann inni í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og sagt var frá í gær.

„Við í Miðflokknum í Reykjavík erum afar ánægð með það fljúgandi start sem framboðið fær í þessari skoðanakönnun,“ segir Vigdís, en flokkurinn hefur farið úr því að vera með 1,1% samkvæmt könnun blaðsins frá 8. febrúar síðastliðnum upp í 4% nú.

Daginn eftir að sú könnun birtist var tilkynnt um að Vigdís myndi leiða lista Miðflokksins. Í könnuninni frá því í febrúar hafði Flokkur fólksins mælst með 4,8%, en nú mælist hann með 3,1% sem ekki dugir til að ná inn manni miðað við þá dreifingu atkvæða sem er í könnuninni. 

„Við erum rétt að byrja að kynna stefnuskrána okkar og við væntum þess að fylgið eigi eftir að stór aukast þegar líður að kosningum vegna óbirtra áherslna framboðsins.“

Vígdís er sannfærð um að fylgi flokkanna eigi eftir að breytast mikið allt fram að kosningum m.a. vegna þess að enn er óljóst hversu margir flokkar verði í framboði og eins hvaða mál flokkarnir setja á oddinn í kosningabaráttu sinni. „Eitt höfum við ákveðið,“ segir Vigdís um áherslur framboðs síns. „Það er að hafa kosningabaráttuna jákvæða og skemmtilega þó undirtónninn verði á alvarlegri nótum vegna stöðu borgarinnar.“

Vilja halda meirihlutasamstarfinu áfram meðan Sjálfstæðismenn sjá ákall um breytingar

Viðbrögð Halldórs Auðar Svanssonar fráfarandi oddvita Pírata og Lífar Magnúsdóttur oddvita VG voru á þá lund að þau bæði fögnuðu að könnunin sýnir að meirihlutinn haldi.

Líf vonaðist þó eftir því aðspurð að vinstrafólk refsaði ekki flokknum fyrir ríkisstjórnarsamstarfið heldur áttuðu sig á hvaða flokkur væri lengst til vinstri.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokksins í minnihluta, voru sammála um að línur í borginni væru að skerpast, þó Dagur sagði stefnu þess síðarnefnda óskýra og horfa til fortíðar. Eyþór sagðist hins vegar sannfærður um að borgarbúar vilji breytingar.