Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, hittust á dögunum til að ræða samstarf Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Fondation Chirac, stofnunar Jacques Chirac. Ákveðið var að Vigdís tæki sæti í heiðursstjórn Fondation Chirac og Frakklandsforsetinn fyrrverandi hét fullum stuðningi við uppbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningunni segir ennfremur: „Verkefni beggja stofnana er að vekja leika og lærða til vitundar um mikilvægi tungumála fyrir menningu og margbreytileika mannkyns.  Fundurinn var einstaklega vinsamlegur og ræddu forsetarnir fjölmarga möguleika á samstarfi, t.d. í rannsóknum á tungumálum, miðlun þekkingar á tungumálum, í orðabókargerð og við varðveislu tungumála. Fundur þeirra fór fram á skrifstofu Jacques Chirac í París en hann var liður í viðamikilli kynningu á Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur sem fram fór í Frakklandi á dögunum.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar. Stofnunin er rannsóknavettvangur kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands sem fást við erlend tungumál og fornfræði.

Fundinn í París sátu einnig Rozenn Milin frá Fondation Chirac og þau Ásdís R. Magnúsdóttir, Jóhanna B. Guðjónsdóttir og Torfi H. Tulinius frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.“