Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er meðal fjölmargra þjóðþekktra einstaklinga sem skrifar undir áskorun til alþingis og ríkisstjórnar sem birtist í dagblöðum í morgun.

Yfirskrfft áskorunarinnar, sem er birt í formi auglýsingar, er „Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign".

Meðal þeirra sem skrifa undir auglýsinguna eru Ragnar Arnalds fv. alþingismaður, Matthías Johannesen fv. ritstjóri Morgunblaðsins, Svavar Gestsson fv.alþingismaður og sendiherra, Hjörleifur Guttormsson fv. alþingismaður, Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins, Kjartan Ólafsson fv. ritstjóri Þjóðviljans og alþingismaður, Halldór Blöndal fv. alþingismaður, Guðrún Helgadóttir fv. alþingismaður, Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður og tónlistarmennirnir Björk og Megas. Um 150 manns skrifa undir áskorunina.

Áskorunin hljóðar svo „Stjórnvöldum ber að standa vörð um eignarhald og umráð landsmanna yfir óbyggðum Íslands og þar með bújörðum sem teygja sig inn á hálendið eða hafa sérstöðu í huga þjóðarinnar af landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum ástæðum. Þessa skoðun staðfestum við með undirskrift okkar.

Við skorum á Alþingi og ríkisstjórn að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign."