„Ég ætla ekki að fara út í það ef ég hefði verið sú sem átti ummæli Sigríðar Ingibjargar, þegar þurfti að stöðva Kauphöllina,“ segir Vigdís Hauksdóttir þingkona í viðtali í Fréttatímanum í dag. Þar segir Vigdís að sér hafi oft þótt netheimarnir óvægnir í sinn garð og bendir á að þó hún sé að vissu leyti orðin ónæm fyrir umræðunni þá megi það sama ekki segja um þá sem henni standa næst.

„Mín tilfinning er sú að það eigi að knésetja mig, knýja mig til uppgjafar. En ég ætla ekki að gefast upp,“ segir Vigdís. Vigdís ræðir fjölda efnilegra kvenna sem nú hyggjast hætta þingmennsku. „Það má alveg velta fyrir sér af hverju konur verði svona ill fyrir barðinu á netheimum,“ segir Vigdís og nefnir Sóleyju Tómasdóttir sem hún segir hafa verið raunverulega orðna hrædda við hótanirnar sem henni bárust.

Vigdís útilokar ekki að eigin flokksmenn séu stundum þeir sem standi að baki neikvæðrar umfjöllun. Þá segir hún umrædda hegðun ná inn í þinghúsið þar sem ákveðinn hópur flissi og viðhafi skvaldur þegar hún taki til máls í ræðustól. „Það hefur til að mynda vakið mikla eftirtekt hvernig Össur Skarphéðinsson hefur tæklað mig og hvernig hann hefur beinlínis tekið þátt í því sem gerist í athugasemdakerfunum,“ segir Vigdís.