Megi Ísland verða frjálst, sjálfstætt og fullvalda ríki um ókomin ár segir Vigdís Hauksdóttir í lok fréttatilkynningar sinnar þar sem hún lýsir því yfir að hún muni ekki sækjast eftir áframhaldandi þingmennsku eftir næstu kosningar.

Upplýsir um afhendingu banka til kröfuhafa

Síðasta stóra verkefni sitt áður en hún láti af þingmennsku segir hún vera að leiða fram staðreyndir um afhendingu tveggja stóru bankanna til kröfuhafanna og upplýsa um vinnubrögð kringum Landsbankann og Icesave sem hún ætli að gera í sumarlok.

Segir hún nú framtíðina vera bjarta fyrir land og þjóð, en svo hafi ekki verið þegar hún hóf störf sem þingmaður en hún sé stolt af verkum sínum á Alþingi.

Þar hafi hún lagt allt undir fyrir land og þjóð en jafnframt að hætta skuli leik þegar hæst hann standi. Nefnir hún í því samhengi Icesave og baráttuna gegn ESB umsókninni, aðförina að stjórnarskránni og baráttuna við kröfuhafana sem hafi leitt til skuldaniðurfellingar fyrir heimlin í landinu.