Vigdís Hauksdóttir sagði á Alþingi í dag að Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hafi tilkynnt á opnum fundi Framsóknarflokksins síðastliðinn föstudag að Framtakssjóður Íslands (FSÍ) vilji selja erlenda hluta Icelandic Group til fjárfestingasjóðsins Triton vegna þess að að félaginu standi Íslendingar. Hún sagði Tríton skúffufyrirtæki.

Icelandic Group er eitt þeirra félaga sem FSÍ eignaðist við kaup á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans. Alls eignaðist FSÍ um 81% hlut í félaginu. Nú ræðir sjóðurinn við evrópska fjárfestingarsjóðinn Triton um kaup á erlenda hluta Icelandic Group. Forsvarsmenn FSÍ hafa sagt að ekki verði rætt við aðra aðila á meðan viðræðum við Triton standi yfir. Komið hefur fram í fjölmiðlar að fjölmargir aðilar hafa sýnt félaginu áhuga.

Rætt um Vestia-málið

Rætt var um söluna á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans, til Framtakssjóðs Íslands í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag. Guðlaugur Þór Þórðarsonar hefur verið gagnrýninn á söluferlið og sagt það ógagnsætt. Í fyrirspurn sinni til fjármálaráðherra spurði Guðlaugur afhverju ekki var staðið við orð sem Steingrímur lét falla þann 8. nóvember sl. Þar sagði Steingrímur:

,, Í því sambandi er rétt að það komi fram að bankasýslan mun í ljósi eignarhalds Landsbankans nú á Framtakssjóðnum beina þeim tilmælum til sjóðsins að hann viðhafi verklagsreglurnar eins og bankinn ætti í hlut þegar að því kemur að þessi fyrirtæki verða skráð eða einhver einstök þeirra seld. Þá kemur að þeirri sölu þar sem slíkar verklagsreglur eiga að sjálfsögðu að vera í heiðri hafðar.“

Guðlaugur Þór spurði einnig hvort Steingrímur muni beita sér fyrir því að verklagsreglum verði fylgt eftir við sölu á fyrirtækjum Vestia og hvort upplýst verði um söluverð á félögunum þegar Vestia var selt til Framtakssjóðsins. Guðlaugur sagði það uppskrift að tortryggni ef ekki eru veittar upplýsingar um söluverð.

Í svari Steingríms kom fram að stofnun Bankasýslunnar, sem heldur um eignarhluti ríkisins í bönkunum, hafi verið þannig úr garði gerð stjórnmálamenn geti ekki skipt sér af.

Um söluverð á Vestia þá hafi það þegar komið fram að Icelandic Group hafi verið metið á 13,9 milljarða og hin félögin samtals á um 4,2 milljarða króna. Alls greiddi FSÍ 15,5 milljarða fyrir félögin en Landsbankinn eignast fjórðungshlut í FSÍ.

Í lok umræðunnar sagði Steingrímur þó ljóst að salan á Vestia hafi ekki verið eins og hann sjálfur kysi að hafa hana.