Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir (Vinga) hefur verið ráðin markaðsstjóri innan deildarinnar „Brand Reputation to Revenue“ hjá hátæknifyrirtækinu NetApp. Ráðning hennar er liður í endurskipulagningu markaðsdeildar NetApp á heimsvísu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Vigdís Ingibjörg er með MBA gráðu frá IE Business School í Madrid og Bs próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming.

„Vigdís Ingibjörg hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún starfaði sem markaðsstjóri í ferðaþjónustunni, leiddi markaðsáform Costco við innkomuna á íslenskan markað, starfaði sem samfélagsstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu OZ og kom að stofnun veitingastaða hérlendis og í Danmörku. Þá hefur hún veitt fyrirtækjum bæði á Íslandi og erlendis ráðgjöf í markaðsmálum og almannatengslum,“ segir í tilkynningunni.

Vigdís Ingibjörg mun bera ábyrgð á herferðum sem miða að því að styrkja ímynd NetApp á heimsvísu og tengja hana við sölu í gegnum stafrænar söluleiðir.

Hún er búsett á Seltjarnarnesi ásamt manni sínum, Sveini Ragnari Sigurðssyni og syni þeirra.

NetApp er með 10.800 starfsmenn víðsvegar um heiminn og hefur verið á Fortune 500 listanum frá árinu 2012. Fyrirtækið er með skrifstofur á Íslandi og þar starfa nú 86 starfsmenn innan ýmissa deilda.