„Það sem mér finnst athyglisvert við skýrslu Ríkisendurskoðunar eru tilmælin til fjárlaganefndar um bætt verklag og ábendingar um hvað við ættum að skoða og ráðast í til að bæta framkvæmd fjárlaga. Ég mun fylgja því eftir," segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins.

Hún bendir á að skýrslan staðfesti það sem allir hafi vitað. Finna þurfi lausn á viðvarandi rekstrarhalla stofnana og beina fyrirspurnum til ráðherra þar af lútandi eins og Ríkisendurskoðun bendi ár. „Við munum gera það," segir Vigdís.

Hún telur ábendingar í skýrslunni ekki endilega gefa til kynna á Alþingi, sem hefur fjárveitingarvaldið, sé veikt gagnvart framkvæmdavaldinu, sjálfri ríkisstjórninni. „Það er ekki veikt ef þingskjal 1 á hverju þingi er í lagi. Fjárlagafrumvarpið þarf að vera eins nærri raunveruleikanum og hægt er svo forsendur þess haldist út fjárlagaárið. Þetta tel ég hægt að lagfæra. Við munum gera það svo raunsærri mynd af ríkisfjármálunum fáist í upphafi fjárlagavinnunnar," segir Vígdís.

Bindur vonir við vinnu hagræðingarhóps

Hún telur að skipun hagræðingarhóps á vegum ráðherranefndar um ríkisfjármál sem skýrt dæmi um að sú vinna sé hafin. „Ég tel þetta vera merki um ný vinnubrögð og skoða eigi allt sviðið í heild sinni áður en fjárlagafrumvarpið er lagt fram í þinginu. Nú verður brugðist hratt og vel við og farið faglega að hlutunum," segir formaður fjárlaganefndar.