Vigdís Jóhannsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Stafræns Íslands. Helsta verkefni Vigdísar verður að leiða innri og ytri markaðs- og kynningarmál verkefnastofunnar með áherslu á vefinn island.is en þetta kemur fram í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins.

Vigdís er viðskiptafræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af markaðsmálum. Hún starfaði um árabil hjá 365 miðlum og var þar bæði verkefnastjóri á markaðsdeild og kynningarstjóri útvarps. Vigdís hóf störf hjá auglýsingastofunni Pipar/TBWA árið 2009. Þar starfaði hún sem ráðgjafi fyrir fjölbreyttan hóp fyrirtækja og sem aðstoðarframkvæmdarstjóri frá árinu 2017.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið setti á fót verkefnastofuna Stafrænt Ísland í upphafi árs 2018. Markmið hennar er aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning.