Forstjórar og stjórnir opinberra hlutafélaga haga sér eins og smákrakkar í sælgætisbúð. Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, í stöðuuppfærslu á Fasbók .

Vigdís hlekkjar þar í frétt Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því að tíu stjórnendur Isavia ohf. hafi bíl til umráða frá félaginu. Í fréttinni er greint frá því að bílahlunnindi hafi numið 2,6 milljónum króna hjá Isavia á síðasta ári, auk þess sem farmiðakaup vegna maka forstjórans nemi tæpum 700 þúsund krónum.

Í stöðuuppfærslunni segir Vigdís: „Það virðist vera sama steypan í rekstri Isavia og Íslandspósts - bæði félögin eru ohf. Ég hef fyrir löngu efast um það rekstrarform - forstjórar og stjórnir ohf félaga ríkisins hafa sér eins og smákrakkar í sælgætisbúð - og svo er sagt við fjárveitingarvaldið - ykkur kemur þetta ekki við.“