Vigdís Hauksdóttir er harðorð í garð Samfylkingarinnar og fyrri ríkisstjórnar í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þar fjallar hún m.a. um Landsdómsmálið og segist vera búin að biðja Geir H. Haarde afsökunar.

Nefnd þingmanna hafði gert tillögu um að fjórir ráðherrar myndu sæta ákæru til Landsdóms. „Þar komum við að þessari rosalegu hræsni Samfylkingarinnar, og hvernig þingmenn þeirra voru tilbúnir til þess að svíkja og stinga í bakið,“ segir Vigdís, sem segir að á þingflokksfundi Framsóknar hafi aldrei annað komið til greina en að greiða einu sinni atkvæði um tillöguna í heild sinni, en ekki um ákæru á hendur hverjum og einum ráðherra fyrir sig.

Vigdís segist hafa ákveðið á grunni þeirra gagna sem hún hafði aflað sér og vinnu þeirra tveggja fulltrúa sem Framsókn hafði í nefnd Atla Gíslasonar að rétt væri að greiða atkvæði með tillögunni. „En þegar í þingsal er komið, þá er búið að brjóta hana niður, og greidd atkvæði um hvern og einn ráðherra sem kom mér mjög á óvart. Það var fyrst og fremst Samfylkingin sem hlífði sínu fólki, það voru engin heilindi, eða raunverulegur vilji á bak við. Það var mjög skrýtið andrúmsloft í þingsalnum þegar þetta gerðist, það var svo þrúgandi að það var hægt að skera andrúmsloftið. Eftirleikinn vita allir,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Engu að síður lagðist Vigdís gegn því að málið yrði dregið til baka, þegar ályktun um slíkt kom aftur fyrir þingið, en segir að eftir á að hyggja hafi það verið rangt hjá sér.

Vigdís segist sjá mikið eftir þætti sínum í þessu máli. „Með hjálp góðra manna tókst mér að koma á fundi með Geir H. Haarde, og ég er búin að biðja hann afsökunar og hann hefur fyrirgefið mér og ég hef gert hreint fyrir mínum dyrum. Það sýnir hvað Geir er stórbrotinn persónuleiki að taka svona afsökunarbeiðni. Það sýnir styrk hans sem einstaklings, og hvað hann kemur heilsteyptur út úr þessum harmleik.“