„Þetta er fáránlegt hvernig umræðan hefur tekið á sig mynd í morgun,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins. Vigdís var tekin tali í útvarpsþætti á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hún annars vegar fréttaflutning RÚV í gær þegar ræddir voru IPA styrkir frá Evrópusambandinu. Umræðan hefur vægast sagt vakið mikla athygli í morgun.

„Fréttamaður RÚV  fór með ósannindi í gær í kvöldfréttum á RÚV. Ég er að gagnrýna það að það er hægt að taka orð og efnisbreyta þeim svo að úr verði röng frétt,“ segir Vigdís. Seinna í viðtalinu hafi komið fram að það væri til skoðunar að fara yfir rekstur RÚV. Hún hafi bent á að hún væri í hagræðingarhópi á vegum ríkisstjórnarinnar og það lægi allur ríkisreksturinn undir þar.

Vigdís þvertekur fyrir að hafa verið að hóta RÚV með orðum sínum og segist aðspurð að hún telji að þau hafi verið slitin úr samhengi. „Raunverulega já, ég held að þetta hafi vissulega verið slitið úr samhengi,“ segir hún.  Hún bendir á að enginn sé hafinn yfir gagnrýni, sérstaklega ekki stjórnmálamenn. „En RÚV verður líka að geta tekið gagnrýni, þegar þeir verða uppvísir að því að birta ranga frétt,“ segir Vigdís.