Það var mikil hátíð í Vatnaskógi í gær, sunnudaginn 27. maí, þegar Birkiskáli II var vígður formlega og verklokum fagnað. Hátt í 300 manns sóttu vígsluathöfnina og fögnuðu þessum merkilega áfanga í sögu Vatnaskógar segir í fréttatilkynningu frá Kristilegu félagi ungra manna.

Frú Agnes. M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti blessunarorð og vígði skálann með formlegum hætti, þá var byggingarsaga skálans var rakin en fyrsta skóflustungn var tekin árið 2007 og hefur skálinn verið byggður í áföngum síðan þá.

Framkvæmdir við skálann og nærumhverfi hans nema yfir 160 milljónum króna. Í Birkiskála er nú gistipláss fyrir um 120 manns og öll aðstaða til fyrirmyndar, bæði fyrir gesti og starfsmenn.

Starfsemi allt árið um kring

Að vígslu lokinni var boðið upp á veitingar auk þess sem gestum var boðið upp á skoðunarferð um svæðið. Þá gafst yngri gestum tækifæri til að fara út á bát og nokkrir eldri rifjuðu upp gamla takta og góðar minningar af veru sinni í Vatnaskógi.

„Með vígslu Birkiskála II er miklum áfanga náð í starfi Vatnaskógar,“ segir Ársæll Ásbergsson framkvæmdastjóri Skógarmanna, sem reka Vatnaskóg fyrir hönd KFUM.

„Í dag fer fram starfsemi í Vatnaskógi allan ársins hring og því mikilvægt að aðstaðan þar sé með besta móti. Í ár eru liðin 95 ár frá því að fyrsti hópurinn kom í Vatnaskóg og horfa Skógarmenn sem starfrækja Vatnaskóg björtum augum til framtíðar með þeirri aðstöðu sem nú hefur verið byggð upp.“