Flugfélagið WOW air bauð gestum og gangandi að sjá aðra af tveimur nýjum flugvélum félagsins, þegar hún var nefnd á Reykjavíkurflugvelli. Vélin TF-MOM lenti á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 17.10.

„Nýju vélarnar verða notaðar í Norður-Ameríkuflug WOW air sem hefst á morgun, föstudaginn 27. mars, með flugi til Boston en flugfélagið mun svo einnig hefja flug til Washington, D.C. þann 8. maí n.k. Boðið verður upp á flug allan ársins hring, sex sinnum í viku til Boston og fimm sinnum í viku til Washington, D.C.," segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér fyrr í dag.

Áætlanir WOW gera ráð fyrir að 132.000 farþegar verði fluttir á milli Norður-Ameríku og Evrópu á þessu ári.