Víglundur Þorsteinsson, fyrrum stjórnaformaður B.M. Vallár, segir að með úrskurði Úrskurðanefndar um upplýsingamál hafi hann fengið að vita að fyrirtækið hafi verið á „aftökulista“ Arion banka. Hann mátti hins vegar ekki vita hvernig „aftakan“ færi fram.

Þetta sagði Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, á blaðamannafundi nú í dag, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Víglundur sakar stjórnvöld um að hafa brotið lög með því að fara ekki eftir reglum neyðarlaganna í kjölfar efnahagshrunsins.

Hann sakar Arion banka um að hafa mismunað skuldunautum í uppgjöri við bankann eftir efnahagshrunið. Í skýrslu sem fjármálaráðherra birti í mars 2011 sé lýst atburðarás sem ekki sé í samhengi við reglur neyðarlaganna.

Það voru erlendar skuldir sem sliguðu rekstur BM Vallár í kjölfar gengishruns og var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur í maí 2010. Eftir þetta var félagið leyst upp og tók Arion banki meðal annars við rekstri steypustöðvarhluta fyrirtækisins en Landsbankinn við límtrés- og vírnetshluta.

Víglundur og Sigurður G. Guðjónsson hrl. sögðu á blaðamannafundinum að lánin sem fyrirtækið tók hafi nú verið dæmd ólögmæt.

Krefjast frekari gagna

Víglundur kærði í fyrra til úrskurðanefndarinnar þá ákvörðun Fjármálaráðuneytisins að synja beiðni hans um aðgang að „samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt“ og að hluthafasamkomulagi milli fjármálaráðuneytisins og Skilanefndar Kaupþings og Arion banka. Úrskurðanefndin staðfesti synjunina í lok júnímánaðar.

Víglundur hefur krafist frekari gagna og telur að úrskurðanefnd hafi ekki fengið öll gögn málsins frá ráðuneytinu. Ljóst sé af úrskurðinum að ráðuneytið segist ekki eiga tiltekin gögn. Víglundur segir þau skjöl vera lista yfir þær eignir sem „vinna skyldi á“. Á þeim lista hafi B.M. Vallá verið meðal annarra fyrirtækja.