Tveir af stærri hluthöfum Límtré hf., Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, hyggjast selja sinn hlut fyrir liðlega 60 milljónir króna hvor. Samkvæmt heimildum Sunnlenska fréttablaðsins munu búnaðarfélög Gnúpverjahrepps, Skeiðahrepps og Hrunamannahrepps, sem líka eru meðal stærri hluthafa, einnig selja sinn hlut.

Eins og kunnugt er náði Víglundur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri BM-Vallár, meirihluta í stjórn fyrirtækisins á aðalfundi nú í vor. Í kjölfarið bauðst hann til að kaupa öll hlutabréf í fyrirtækinu á genginu 3,8 og lýkur söluferlinu 20. júlí næstkomandi. Aðspurður segir Víglundur að rekstur fyrirtækisins á Flúðum og Reykholti muni haldast óbreyttur. Ennfremur sé mögulegt að Límtré eigi eftir að auka umsvif sín á Flúðum segir í frét Sunnlenska

Í samtali við Sunnlenska fréttablaðið segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, að lengi hafa staðið til að selja hlut hreppsins í félaginu, en ekki hafi fengist viðunandi verð fyrr en nú. Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða og Gnúpverjahrepps, var á sama máli þegar Sunnlenska ræddi við hann en tekið skal fram að þar á hreppsnefndin eftir að afgreiða málið.

Heildarhlutafé í Límtré hf. er metið á um 700 milljónir króna.