Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í gær að ríkisútgjöld hafi þanist gríðarlega út á undanförnum árum og nauðsynlegt sé að ráðast í umtalsverðan niðurskurð. Hann segir að nauðsynlegt sé að fækka opinberum starfsmönnum.

„Á liðnum árum var búið að þenja ríkisútgjöldin út með því að eyða þenslugróða. Sá þenslugróði hafði líka verðið notaður til að greiða niður ríkisskuldir – guði sé lof fyrir það – en engu að síður var búið að nota þessar miklu tekjur af bönkunum og útrásinni til að auka ríkisútgjöld. Þau voru aukin – og þá er ég ekki að tala um augnabliksvanda sem skapast af Icesave, bráðabirgðalánum AGS eða endurreisn bankanna – heldur aukin ríkisútgjöld," segir Víglundur í viðtalinu.

Hann bendir á að það þurfi að skera varanlega niður ríkisútgjöld um 40 til 50, jafnvel 60 milljarða króna á ári.

„Þá geng ég út frá því að atvinnulífið nái að endurreisa hagkerfið og við finnum okkur nýtt jafnvægi svo að hægt sé að hefja uppbyggingu á næsta ári. Um þennan niðurskurð er enginn að tala um. Um þennan niðurskurð þorir enginn að tala um. Þetta þýðir að það þarf að leggja af ýmsa opinbera þjónustu og skerða aðra. Það er ýmislegt sem þarf að hætta við og loka."

Það þarf að fækka um 3.000 opinbera starfsmenn

Til að sýna þær stærðir sem hér um ræðir benti Víglundur á að hægt væri að gera ráð fyrir að hver og einn opinber starfsmaður kosti 15 milljónir króna á ári.

„Er þetta ekki einfalt reikningsdæmi – það þarf að fækka um 3.000 opinbera starfsmenn. Þá er sagt; þá eykst atvinnuleysið! En ef á að skattleggja framleiðslu- og þjónustuatvinnugreinarnar til að halda svona mörgum opinberum starfsmönnum við verkefni sem við höfum ekki efni á þá eykst atvinnuleysið á hina hliðina og framleiðslu- og þjónustuatvinnuvegirnir ná ekki að endurreisa hagkerfið. Þetta er einfalt að sjá og ef menn ætla að ná þessari endurreisn og að treysta gjaldmiðilinn þá er þetta númer eitt."