Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður B.M. Vallár og aðaleigandi þess á sínum tíma, ætlar að leggja fram áður óbirt gögn sem benda til þess að ráðherrar, einstakir starfsmenn nýju bankanna og skilanefndanna hafi gerst brotlegir við ýmis ákvæði íslenskra laga sem refsingar eru lagðar við þegar fyrirtækið varð gjaldþrota.

Víglundur hefur verið ósáttur við málalokin síðan fyrirtækið óskaði eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta í kjölfar þess að viðræður við kröfuhafa sigldu í strand fyrir tveimur árum. Hann sagði fyrirtækið m.a. hafa verið á því sem hann kallaði aftökulista Arion banka.

Fjármálaeftirlitið gerði í síðustu viku engar athugasemdir við meðferð skuldamála B.M. Vallár hjá Arion banka og var því vísað á bug að aftökulisti hafi verið þar til.

Eftir að tilkynning Fjármálaeftirlitsins var birt lýsti Víglundur því yfir að athugun eftirlitsins hafi verið yfirborðskennd og fjarri þeirri rannsókn sem stofnuninni bar að framkvæma.

„Þessi vinnubrögð hefðu ekki átt að koma mér á óvart því þau er í fullu samræmi við vinnulag FME á undanförnum árum, sem hefur fremur snúist um að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækjanna en viðskiptavina þeirra," sagði Víglundur.