Eignarhaldsfélag í eigu Víglundar Þorsteinssonar, stjórnarformanns BM Vallár, hefur að undanförnu bætt við hlut sinn í framleiðslufyrirtækinu Límtré Vírneti hf. og er nú komið með 53% hlut. Að sögn Víglundar hefur verið ákveðið að gera öðrum hluthöfum í Límtré Vírneti yfirtökutilboð og átti hann von á að það yrði gert í næsta mánuði.

Á aðalfundi Límtrés Vírnets fyrir skömmu var Víglundur kosinn stjórnarformaður félagsins í stað Harðar Harðarsonar.

Að sögn Víglundar eignuðust þeir hlut í Límtré Vírneti fyrir nokkru í tengslum við kaup félagsins á Sandi Ímúr og þótti þá félagið áhugavert. Þegar boðist hafi að kaupa meira hafi þeir gert það en seljendur hlutanna nú eru Sparisjóður Mýrasýslu og ýmsir einstaklingar. Aðspurður um tengsl félaganna sagði hann of snemmt að segja en samvinna þeirra yrði án efa skoðuð í kjölfar breytinga á eignarhaldi. "Innlendur rekstur Límtrés Vírnets er þess eðlis að okkur finnst það spennandi."

Límtré Vírnet er með starfsemi í Borgarnesi, á Flúðum í Hrunamannahreppi, í Reykholti í Biskupstungum og Reykjavík. Þann 1. janúar 2005 sameinuðu Límtré hf. og Vírnet Garðastál hf. innlendan rekstur sinn og heitir hið nýja sameinaða fyrirtæki Límtré Vírnet ehf. Framkvæmdastjóri Límtrés Vírnets ehf. er Stefán Logi Haraldsson, sem áður var framkvæmdastjóri Vírnet Garðastál hf.