Næstkomandi laugardag, 6. október 2007, verður nýr áfangi Lagarfossvirkjunar vígður. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra mun þá leggja hornstein að virkjuninni og móttaka verður í Valskjálf á Egilsstöðum að vígslu lokinni. Lagarfossvirkjun stækkar úr 8 MW í rúm 28 MW og orkuframleiðsla RARIK samstæðunnar tvöfaldast.

ilkomu Kárahnjúkavirkjunar verða vatnaflutningar sem valda auknu rennsli í Lagarfljóti árið um kring. Við það skapast aðstæður til stækkunar Lagarfossvirkjunar.



Fyrri áfangi Lagarfossvirkjunar var tekinn í notkun árið 1975 með um 8 MW afl. Undirbúningur að verkhönnun fyrir stækkun virkjunar hófst á árinu 2003 og í árslok lá fyrir verkhönnunarskýrsla sem benti eindregið til þess að hagkvæmt væri að auka afl virkjunarinnar um allt að 20 MW með um 130 GWh orkuaukningu á ári.

Í kjölfar þess ákvað stjórn RARIK að sækja um heimildir til framkvæmda við stækkun virkjunarinnar. Jafnframt var ákveðið að endurnýja ýmsan stjórnbúnað í eldri hluta Lagarfossvirkjunar.



RARIK tilkynnti fyrirhugaða stækkun til Skipulagsstofnunar í maí 2004 og var óskað eftir því að stækkun virkjunarinnar yrði undanþegin mati á umhverfisáhrifum. Með úrskurði í júní 2004 féllst Skipulagsstofnun á ósk RARIK. Ekki bárust neinar kærur á ákvörðun stofnunarinnar. Framkvæmdin hafði enda mjög litla röskun umhverfis í för með sé, í stórum dráttum má segja að utan frá séð hafi framkvæmdin falist í stækkun stöðvarhúss og dýpkun og breikkun aðrennslisskurðar.



Virkjunarleyfi vegna stækkunar Lagarfossvirkjunar um allt að 20 MW var gefið út af þáverandi iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur þann 11. janúar 2005 og þá um vorið hófust framkvæmdir sem nú er lokið.