Áætluð velta Avion Group á árinu er 1,2 milljarðar Bandaríkjadala eða um 130 milljarðar króna og fyrirtækið verður skráð í Kauphöllina fyrir lok árs. "Avion Group er reiðabúið til flugtaks," sagði Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion, við formlega opnun nýrra höfuðstöðva í Bretlandi í gær. Þessar höfuðstöðvar munu hýsa Air Atlanta Europe og Excel Airways Group. Höfuðstöðvarnar eru í Crawley, vestur Sussex.

Viðhaldsfyrirtæki Avion Group, Air Atlanta Aero Engineering og Aviaservices og hafa verið sameinuð í Avia Technical Services. Gert er ráð fyrir að fleiri viðhaldsfyrirtæki bætist við í framtíðinni. Fyrirtækin tvö verða áfram rekin í sitt hvoru lagi en yfirstjórn þeirra sameinuð og reksturinn straumlínulagðari. Avia Technical Services verður með höfuðstöðvar á flugvellinum í Kent.

Hjá Avion Group starfa 3.200 manns og félagið hefur 66 flugvélar til umráða. Velta ársins 2004 liggur enn ekki fyrir en félagið áætlaði að veltan yrði yfir einum milljarði Bandaríkjadala.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands opnaði formlega nýju höfuðstöðvarnar og fjallaði af því tilefni um útrás íslensku víkinganna til Bretlands. Hann sagði Íslendinga þora að taka áhættu, búa við lítið skrifræði og einnig að persónuleg tengsl skiptu miklu í íslensku viðskiptalífi. Ólafur segir Air Atlanta, sem nú tilheyrir Avion Group gott dæmi um hvað Íslendingar geta gert. "You ain't seen nothing yet," sagði hann við góðar undirtektir.