Hollenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í varnaræfingum fyrir Atlantshafsbandalagið hefur í hyggju að setja á fót á Íslandi viðhaldsstöð fyrir 18 vopnlausar orrustuflugvélar.

Samtals er áætlað að 150-200 föst störf skapist hjá fyrirtækinu auk afleiddra starfa en markmiðið er að setja upp starfsemi á fyrrum athafnasvæði bandaríska hersins (að Ásbrú í Reykjanesbæ) á Keflavíkurflugvelli að því er segir í tilkynningu.

Ljóst er að viðhaldsstarfsemi vegna flugvélanna verður umsvifamikil og verkefnið  felur í sér tækifæri til atvinnusköpunar með víðtækum  margfeldisáhrifum.

Í tilkynningu segir að fyrirtækið sérhæfir sig í  rannsóknum og tækniþróun á sviði loftvarna og annast þjálfun fyrir aðildarþjóðir NATO um alla Evrópu.

Áætlað er  að félagið staðsetji hér á landi viðhaldsstöð fyrir flugvélar ásamt þyrlum sem kæmu til með að hafa hér heimastöð auk alls skrifstofuhalds fyrirtækisins. Stærsti hlutinn af starfsseminni fer þó fram erlendis.  Unnið er að gerð samkomulags við íslensk stjórnvöld um aðstöðu fyrir starfsemina. Gangi það eftir verður um mikla lyftistöng að ræða fyrir Suðurnes og landið í heild en engar varnaræfingar munu þó fara fram hér á landi á vegum fyrirtækisins.

4,5 milljarða króna fjárfesting

Húsnæðisþörf fyrirtækisins er veruleg  og er horft til nýtingar á núverandi húsnæði á svæðinu en auk þess þarf að ráðast í miklar framkvæmdir til að mæta þörfum til fulls. Gert er ráð fyrir að félagið ráðist í fjárfestingar allt  að kr.  4,5 milljarðar króna og er fjármögnun tryggð.  Áætlað er að  tekjur ríkissjóðs vegna starfseminnar verði 700 – 800 milljónir króna á ári hverju.

Gert er ráð fyrir að félagið semji  um húsnæði og aðstöðu á flugvellinum og á Ásbrú auk ýmissar þjónustu og að samstarf verði við Keili háskólasamfélag þar sem um ýmis hátæknistörf  yrði að ræða á vegum félagsins.