Biðin eftir skráningu Exista á markað styttist óðfluga en nú er vika í skráningu sem fer fram föstudaginn 15.september. Exista verður við skráningu fimmta stærsta félagið í Kauphöllini, með markaðsvirði í kringum 235 milljarða króna. Sérfræðingar búast við að í kjölfar mikillar eftirspurn eftir bréfum Exista muni félagið fara af stað af miklum krafti í Kauphöllinni. Sérfræðingar sjá þannig fram á hækkanir í kjölfar skráningar þegar fjárfestar reyna að auka enn frekar við hlut sinn í Exista.

Útboðið til fagfjárfesta í gær á bréfum Kaupþings banka í Exista var fyrsta stóra skrefið í átt að því markmiði að koma Exista á markað. Töluverð umfram eftirspurn var eftir hlutum í Exista í gær og nýtti Kaupþing banki heimild til að tvölfalda fjölda þeirra hluta sem var í boði var og seldi alls 300 milljón hluti eða 2,8% hlutfé síns í félaginu. Sérfræðingar eru sammála um að Exista mun sennilega fara af stað með látum í Kauphöllinni til að byrja með, þar sem mikill eftirspurn eftir bréfunum í útboðinu í gær gefi til kynna hvað koma skal.

Jónas G. Friðþjófsson, sérfræðingur hjá greiningu Glitnis, telur að auk þess muni stærð félagsins muni tryggja góðar móttökur en fyrr eða síðar mun Exista komast í Úrvalsvísitöluna, sem mun auka eftirspurn eftir bréfunum þar sem slíkt myndi glæða áhuga verðbréfasjóða og fjárfesta sem leitast við að láta eignasafn sitt endurspegla vísitöluna.

Jónas telur að tímasetning skráningarinnar muni einnig koma til með að hjálpa félaginu, enda hafi nú orðið skarpur viðsnúningur á markaðnum og stemmningin góð. "Ekki er víst að það sama hefði verið upp á teningnum hefði verið reynt að skrá félagið fyrir tveimur mánuðum síðan," segir Jónas. Greiningardeild Landsbankans telur, líkt og Glitnir, að markaðsaðstæður komi til með að styðja við útboðsgengið og að góðar líkur séu á að bréf Exista hækki til skamms tíma litið.

Til lengri tíma litið telja sérfræðingar að óvissa í tryggingareksti og áhyggjur undirstöðum félagsins í ljósi slæmrar afkomu Exista og dótturfélaga á fyrri hluta árs gæti litað væntingar og tiltrú fjárfesta. Afkoma Exista og dótturfélaga var undir væntingum á fyrri hluta árs og var neikvæð um 3,3 milljarða króna. Afkoma Símans var neikvæð um 6,4 milljarða. Sérfræðingur Glitnis bendir þó á að afkoma Kaupþings og Bakkavarar hefur verið viðunandi á árinu og að taprekstur Símans sé nánast að öllu leyti rekjanlegur til áhrifa veikingar krónunnar.

Sérfræðingur Glitnis segir þó líklegt að það muni vega á móti að fjárfestar horfi til þess hverjir standa að baki Exista (Bakkabræður) og hvernig þeir hafi staðið sig í örðum fjárfestingum, á borð við Bakkavör og Kaupþing. "Þær fjárfestingar hafa gengið glymrandi vel, enda hafa þeir sýnt fram á skýra framtíðarsýn í fjárfestingum sínum. Þetta ætti að gefa fjárfestum aukna tiltrú á félagið og glæða áhuga á að eignast hluta í því," segir hann.

Greiningardeild Landsbankans tekur í svipaðann streng og segir að það ætti að gefa félaginu aukið vægi að stjórnendur Exista séu þekktir fyrir góðan árangur í fjárfestingum sínum og hafi góð sambönd á erlendum fjármagnsmörkuðum, sem ættu að geta nýst hluthöfum Exista með jákvæðum hætti.