Félagið Stórsaga hefur undirritað viljayfirlýsingu við Mosfellsbæ um leigu á landi í ofanverðum Mosfellsdal, nánar tiltekið landi Selholts sunnan Leirtjarnar. Þar stefnir félagið að því að reisa víkingaveröld, sem veita á innsýn í það umhverfi sem menn bjuggu við á þjóðveldisöld.

Í fyrsta áfanga uppbyggingarinnar er gert ráð fyrir þjóðveldisbæ, smiðju, stafkirkju, þingbúðum og ýmsum öðrum mannvirkjum í fornum stíl. Til þess að unnt sé að hefja framkvæmdir þarf Mosfellsbær að breyta aðaðskipulagi því svæðið er nú skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Samkvæmt skipulaginu verður landnotkuninni breytt í afþreyingar- og ferðamannasvæði.  Skipulagsferlið er að hefjast og hefur verkefnalýsing verið birt á vef bæjarins .

Viðskiptablaðið greindi frá áformum Stórsögu þann 15. maí síðastliðinn. Í þeirri umfjöllun kom fram að áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina væri um 130 milljónir króna. Bærinn væri inni í Gullna hringnum og mjög nálægt borginni og því gerðu forsvarsmenn Stórsögu ráð fyrir töluverðum straumi ferðamanna á svæðið. Þess vegna væri gert ráð fyrir að hafa bæinn opinn  allt árið um kring.

Í samtali við Viðskiptablaðið í maí sagðist Kristbjörn Helgi Björnsson, forsvarsmaður Stórsögu ehf., bjartsýnn á að þetta verði að veruleika.

„Þetta er ekki spurning hvort heldur hvenær,“ segir Kristbjörn Helgi. „Það tekur ekki langan tíma að reisa þennan bæ og ef allt gengur að óskum munum við opna næsta vor. Hugmyndin er að búa til víkingaveröld í Mosfellsdal þar sem boðið verður upp á víkingasýningu allan daginn. Gestir geta séð fólk sinna handverki, matargerð og gera öll þessi gömlu verk sem voru unnin á þessum bæjum fyrr á öldum. Á svæðinu verður líka markaður þar sem handverksfólk í víkingabúningum verður í víkingatjöldum að selja sínar vörur. Við verðum á sögufrægum stað enda er Hrísbrú í Mosfellsdal fyrir­myndin að bænum sem við ætlum að byggja.“