Viðræður vegna lokafjármögnunar á víkingaheim í Mosfellsdal eru í fullum gangi. Fyrirtækið er eitt þeirra tíu sem taka þátt í í viðskiptahraðli í ferðaþjónustu, Startup Tourism.

Sigurlaugur Ingólfsson hjá félaginu Stórsögu ehf., sem stendur að verkefninu, segir hugmyndina upphaflega hafa kviknað fyrir um áratug þegar hann starfaði í tengslum við tilgátuhús í Þjórsárdal. „Fólk var að spyrja hvort hægt væri að fá að halda veislur og fá að gista. Þannig kviknaði þessi hugmynd að það væri gaman að búa til torfhús frá víkingaöld sem væri svolítið lifandi,“ segir Sigurlaugur.

Síðan þá hefur verkefnið verið í gerjun. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá áformum félagsins um víkingaheim í Mosfellsdal árið 2014. „Við skoðuðum nokkrar stað- setningar. Við vorum mjög langt komin á tímabili að reisa þetta við Laugarvatn.“ Það hafi ekki gengið upp en félagið hafi svo fengið lóð til leigu frá Mosfellsbæ í Mosfellsdalnum, á milli Gljúfrasteins og Skálafells. Deiliskipulagsvinna hjá Mosfellsbæ standi einnig yfir.

„Í grunninn er hugmyndin að byggja tilgátuhús sem byggir á fornleifarannsóknum úr dalnum og víðar. Við erum þá að túlka þessa svokölluðu landnámsöld. Hugmyndin er að fólk geti gengið inn í fortíðina ef við getum sagt sem svo þar sem fólk verður að sýna eigin handverk og gestir geta fengið að spreyta sig þannig að þetta verði svolítið gagnvirk og lifandi upplifun,“ segir Sigurlaugur.

„Við munum vera pínulítið dansandi á tímum heiðni og kristni í kringum árið þúsund, þannig að við getum tínt til úr báðum heimum.“ Starfsmenn verði klæddir með sama hætti og talið er að fólk hafi verið klætt á þeim tíma.

Einnig sé stefnt að því að hægt verði að sækja staðinn heim á kvöldin þar sem gestir snæða kvöldverð við langeld og skemmta sér undir handleiðslu sögumanns.

Fyrsti áfangi kostar yfir 100 milljónir

Fyrstu skref felast í að byggja skála og móttökuhús. Auk þess þurfi að laga vegtengingu, koma heitu og köldu vatni að svæðinu og búa til bílastæði. Alls sé áætlað að fyrsti áfangi kosti yfir 100 milljónir króna. Því komi sér afar vel að hafa komist að í Startup Tourism. „Þar höfum við aðgang að reynslumiklu fólki og tengingum sem geta hjálpað okkur í þessum loka fjármögnunarskrefum.“ Komist fyrsti áfangi á koppinn vonast forsvarsmenn félagsins til að geta stækkað víkingaheiminn í tveimur skrefum. Fyrst með byggingum sem gæfu innsýn inn í forna búnaðarhætti. Til að mynda með því að bæta við eldsmiðju, skjólshúsi með húsdýrum og fleiri mannvirkjum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .