Formleg heimsókn Viktoríu krónprinsessu Svía og Daníels prins, eiginmanns hennar, hefst með því að krónprinshjónin koma ásamt sendinefnd til Bessastaða klukkan 9:40 og eiga fund með forsetahjónum. Klukkan 10:10 munu Viktoría krónprinsessa og forseti flytja stutt ávarp á fundi með fjölmiðlum og að því loknu verður tækifæri til frekari myndatöku.

Klukkan 10:50 koma gestirnir í Hörpu, skoða bygginguna og fræðast um hana; einnig verður þar stutt kynning á hinu blómlega íslenska tónlistarlífi. Næst halda gestirnir í Norræna húsið þar sem efnt er til fundar um viðskiptatengsl landanna og hefst hann kl. 12:00. Að fundinum standa Sænska sendiráðið á Íslandi og Íslensk-sænska viðskiptaráðið.

Klukkan 14:30 heimsækja Viktoría krónprinsessa og Daníel prins Hellisheiðarvirkjun, fræðast um vistvænar orkulindir Íslands og nýtingu þeirrra, um íslensk jarðhitaverkefni erlendis sem og um efni sem varðar norrænt samstarf á vettvangi vísinda og stjórnmála. Þá munu hjónin heimsækja stoðtækjafyrirtækið Össur og kynnast starfsemi þess og hefst sú heimsókn klukkan 16:10.

Að kvöldi þessa fyrri dags heimsóknarinnar sitja Viktoría krónprinsessa og Daníel prins kvöldverð á Bessastöðum í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og frú Dorrit Moussaieff forsetafrúar.

Á morgun munu krónprinsessan og eiginmaður hennar svo ferðast um Norðurland.