© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viktoría Jensdóttir hefur verið ráðin til að leiða nýja deild, Virðisþróun, hjá Símanum til þess að skoða, greina og einfalda ferla að hætti Lean hugmyndafræðinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Símanum að Viktoría hefur víðtæka reynslu á sviði straumlínustjórnunar, fyrst hjá Alcoa Fjarðaáli þar sem hún starfaði sem ferilseigandi steypuskála í fjögur ár. Þá hóf hún störf hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri þar sem hún var deildarstjóri umbóta og öryggis. Hún hefur einnig veitt framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum ráðgjöf.

„Hjá Símanum og öðrum félögum samstæðunnar munum við skoða hvernig bæta megi virði þjónustunnar fyrir viðskiptavini, starfsmenn og fyrirtækið," segir Viktoría í tilkynningunni. „Virðisþróun mun því einfalda virðisstrauma, innleiða sjónræna stjórnun og þjálfa starfsmenn. Einnig taka þátt í umbótaverkefnum með þeim öllum út frá stefnu fyrirtækisins og með hag viðskiptavina að leiðarljósi," segir Viktoría, sem er með silfur í Lean Black Belt Six Sigma frá Pyzdek Institute. Hún hefur stýrt straumlínuhópi Dokkunnar og kennt straumlínustjórnun við Háskóla íslands, Háskólann í Reykjavík og sjálfstætt hjá hinum ýmsu fyrirtækjum.

Viktoría situr í stjórn Verkefnastjórnunarfélag Íslands og Lean Íslands ásamt því að vinna að árlegri ráðstefnu samtakanna.

Viktoría er M.Sc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Gift Stuart Maxwell verkfræðingi hjá Mannviti. Þau eiga tvo syni.