Þriggja ára skipunartíma Alberto Pototschnig, núverandi forstjóra ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins, rann út í september síðastliðnum og leitar stofnunin því að nýjum forstjóra.

Á heimasíðu stofnunarinnar er talað um að umsóknarfresturinn fyrir stöðuna renni út í lok september, en tveimur dögum áður en skipunartíma hans átti að ljúka, eða 13. september má finna frétt á síðunni Mondovision um að hann muni starfa þangað til nýr forstjóri finnist þar sem ekki hafi orðið árangur af ráðningarferlinu.

Í auglýsingu í nýlegri prentútgáfu tímaritsins The Economist segir að umsóknarfresturinn sé til 26. nóvember, það er til mánudagsins komandi. Stofnunin hefur verið mikið í umræðunni hér á landi síðustu ár en ljóst er að völd hennar aukast umtalsvert við upptöku þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um og sjá má fyrir neðan, hafa þó verið miklar deilur um það hve mikil völd stofnunarinnar verða til að ráða orkumálum hér á landi í gegnum EES samninginn og upptöku orkupakkans sem nú er til umræðu á Alþingi.

Í auglýsingunni segir að leitað sé eftir reyndum stjórnanda til að vera fulltrúi stofnunarinnar út á við. Jafnframt verði hlutverk stjórnandans að koma með stefnumörkun og leiða hóp 110 sérfræðinga stofnunarinnar, frá höfuðstöðvum hennar í Ljubljana í Slóveníu.

Hlutverk stofnunarinnar er jafnframt sagt vera að hlúa að samþættum orkumarkaði þar sem verslað er með bæði rafmagn og jarðefnaeldsneyti samkvæmt gagnsæjum stöðlum. Þannig geti neytendur í ESB ríkjunum grætt á auknu vali, og aukinni vernd, en til þess starfi stofnunin með öðrum Evrópustofnunum, orkustofnunum þjóðríkjanna og öðrum hagsmunaaðilum.

Hér má lesa fleiri fréttir um þriðja orkumálapakka ESB:

Hér má lesa skoðanapistla um þriðja orkumálapakka ESB:

15. apríl 2018 - Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi