Bloggsvæði Víkurfrétta á www.vikurfrettir.is verður lokað þann 1. mars nk. að því er kemur fram á heimassíðu þeirra. Víkurfréttir vinna í dag að áherslubreytingum í netsíðum fyrirtækisins. Verið er að skerpa línur og meiri áhersla verður lögð á fréttaþjónustu Víkurfrétta á Netinu á vefsíðunni www.vf.is .   Í fréttinni kemur fram að aðsókn að bloggsvæðinu er langt undir væntingum. Víkurfréttir bera talsverðan kostnað af því að halda úti bloggvefnum á sama tíma og fyrirtækið hefur engar tekjur af blogginu. Fáir virkir bloggarar nýta sér www.vikurfrettir.is og til að nýta fjármuni betur verður þeim varið til að efla frekar aðra þætti á Víkurfréttavefnum vf.is.   Þróun á bloggsvæðum er það hröð að það er ekki á færi fyrirtækis eins og Víkurfrétta að fylgja eftir þeirri þróun, enda kostnaðarsamt og stórar blogg-þjónustur hafa mettað markaðinn. Þá hafa margir bloggarar frekar kosið að færa sig yfir á Facebook og aðrar slíkar síður. Fókusinn hjá Víkurfréttum er því settur á fréttaþjónustu á vf.is á eins metnaðarfullan hátt og efni standa til.   Notendur vf.is munu taka eftir breytingum á forsíðu vf.is á næstu dögum. Síðan verður einfölduð og aðgengilegri.