*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 27. desember 2007 15:15

Víkurfréttir og Prentun.com undirrita samstarfssamning

Ritstjórn

Víkurfréttir og Prentun.com hafa undirritað samstarfssamning um sölu og þjónustu á prentun á Suðurnesjum undir nafni prentun.com. Forráðamenn fyrirtækjanna, Páll Ketilsson og Rafn B. Rafnsson undirrituðu samning þessa efnis nýlega, segir í frétt frá fyrirtækjunum. Fyrirtækið printing.com var stofnað í Englandi 1998 en hefur nú sest að á Íslandi undir nafninu prentun.com (en eigandi þess er Kvos sem m.a. rekur Prensmiðjuna Odda). Printing.com hefur fengið fjölda verðlauna frá stofnun þess og var m.a. kosið „Fyrirtæki ársins“ í Bretlandi 2006. Markmið fyrirtækisins er að bjóða bestu mögulegu þjónustu á lágu verði. Prentverkið er síðan framleitt í stærstu og öflugustu prentsmiðju Íslands og þannig fá viðskiptavinir bestu verðin á markaðnum, segir í fréttinni. „Hjá prentun.com er boðið upp á beinan aðgang að grafískum hönnuðum, markaðs- og söluráðgjöfum sem vinna að því að koma fyrirtæki þínu og skilaboðum á framfæri á einfaldan og árangursríkan hátt. Það er okkur mikið ánægjuefni að Víkurfréttir ehf. sem er mjög þekkt fyrirtæki á Suðurnesjum sé fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem gerir samstarfssamning við prentun.com“ sagði Rafn í fréttinni.

Víkurfréttir ehf. sem fagna aldarfjórðungsafmæli sínu í janúarbyrjun 2008 hafa á undanförnum árum aukið þjónustu sína í hönnun, prentun og markaðsþjónustu en fyrirtækið hefur aðallega verið þekkt fyrir útgáfu samnefndra vikulegra bæjarblaða á Suðurnesjum annars vegar og svo í Hafnarfirði, Garðbæ og Álftanesi hins vegar.

Þá hefur fyrirtækið rekið tvo vinsæla fréttavefi á netinu, www.vf.is og kylfingur.is auk annarrar starfsemi á sviði fjölmiðlunar. Með þessum samningi er VF að stíga ný skref í prentþjónustu.

„Ég veit að reynsla okkar og þekking í hönnun og í sölu- og markaðsmálum hér á Suðurnesjum á eftir að reynast viðskiptavinum okkar vel sem vilja nota prentun.com,“ sagði Páll Ketilsson, framkvæmdastjóri Víkurfrétta ehf. í fréttinni.