Vilborg Arna náði að komast á topp fjallsins Vinson Massif á aðfangadag. Vinson Massif, eða Vinson eins og það er oftast kallað, er hæsta fjall Suðurskautsins, 4.892 metra hátt. Þetta var fjórði tindurinn af sjö sem Vilborg hyggst sigra á einu ári.

"Gleðileg jól! Þetta var enginn venjulegur aðfangadagur heldur Vinson Summit dagur!" segir Vilborg Arna á bloggsíðu sinni. "Team Iceland stóð sig vel og allur hópurinn náði á tindinn. En BRRRRR sennilega kaldasti summit dagurinn hingað til."

"Leiðin var virkilega falleg en vegna kuldans og vindsins var lítið um myndatökur. Vonandi eruð þið öll að njóta jólanna, við erum líka að gera það bara á annan hátt."

Vinson fjall er nefnt í höfuðið Carl Vinson, sem sat í fimmtíu ár á bandaríska þinginu. Hann lagði mikla áherslu á rannsóknarstarf á Suðurskautinu á meðan hann var í embætti. Carl Vinson lést árið 1981 og var það 97 ára gamall.

Fyrri tindar:

Í nóvember komst Vilborg Arna á topp Carstensz Pyramid í Indónesíu, en fjallið er það hæsta í Eyjaálfu eða 4.884 metra hátt.

Í ágúst komst Vilborg Arna á topp fjallsins Elbrus, sem er í Kákasusfjöllunum og hæsti tindur Evrópu. Fjallið er 5.642 metra hátt.

Í lok maí komst Vilborg Arna á topp McKinley-fjalls eða Denali. Það er hæsta fjall Norður-Ameríku, 6.168 metra hátt.