Mikið var um dýrðir í Perlunni þegar Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) afhenti sínar árlegu viðurkenningar við hátíðlega athöfn. FKA viðurkenninguna 2010 hlaut Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors. Mentor var stofnað árið 2000 og var Vilborg Einarsdóttir einn af stofnendum félagsins.

Í umsögn dómnefndar segir að óhætt sé að segja að tilkoma fyrirtækisins hafi gerbylt öllu skólastarfi og auðveldað til muna samskipti kennara, foreldra og nemenda. Fyrirtækið hefur hlotið fjölmörg verðlaun á liðnum árum og nægir þar að nefna Vaxtarsprotann bæði 2008 og 2009 – en sú viðurkenning er veitt fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Tölurnar tala líka sínu máli og má benda á að félagið jók veltu sína um 160% árið 2008 – og er áætlað að veltuaukningin 2009 hafi verið u.þ.b. 30%.

Árið 2007 urðu straumhvörf í starfseminni þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins keypti 20% hlut í félaginu. Í kjölfarið sameinaðist Mentor sænska fyrirtækinu PODB, sem sérhæfir sig í upplýsingakerfum fyrir kennara – með sérstakri áherslu á einstaklingsmiðað nám. Að sögn Vilborgar var þessi sameining mikið heillaspor fyrir báða aðila. Þarna hafi sannast að í samruna geti 1 + 1 orðið 3 .. eða jafnvel 4. Bæði fyrirtækin hafi búið yfir mikilli þekkingu, hvort á sínu sviði og við samrunann hafi starfsemin í báðum löndum eflst til muna. Mentor hyggur á frekari landvinninga og nú er stefnan tekin á Sviss og Þýskaland.

Vilborg situr einnig í stjórn Samtaka sprotafyrirtækja. og segir mikla bjartsýni ríkja meðal þeirra sem starfa í nýsköpun. Hún telur menn reiðubúnari að hlusta á nýjar hugmyndir í dag en oft áður. Það leynist fjölmörg tækifæri í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag – enda búi þjóðin yfir ótrúlegum auðæfum;  náttúru, þekkingu og hugviti.

Formaður FKA; Hafdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri World Class ávarpaði gesti og verðlaunin afhentu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.