Hagnaður VÍS nam 476 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við hagnað upp á 2,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi félagsins. Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir í tilkynningu að félagið sé fyrst íslenskra tryggingafélaga til að verðlauna fyrir tryggð viðskiptavina sinna með nýju vildarkerfi.

Minni hagnaður á milli ára liggur helst í fjárfestingatekjum félagsins, sem voru jákvæðar um tæpa 2,6 milljarða í fyrra en aðeins 452 milljónir í ár. Árið hefur farið rólega af stað á fjármálamörkuðum samanborið við í fyrra og markaðsaðstæður verið erfiðar, að því er kemur fram í ársreikningi. Auk þess segir að hækkanir á óskráðum eignum sem nemur um 1,3 milljarði króna á fyrri helmingi árs skýri fyrst og fremst jákvæðar fjárfestingatekjur félagsins á árinu og má þar helst nefna Kerecis og Controlant.

Hagnaður VÍS af vátryggingarekstri nam 241 milljón á fjórðungnum, samanborið við 321 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Heildareignir VÍS stóðu í tæpum 60 milljörðum í lok fyrri helmings árs og eigið fé í 17,5 milljörðum.

Haft er eftir Helga Bjarnasyni forstjóra félagsins í tilkynningu um uppgjörið að fyrstu sex mánuðir ársins hafi litast af þungum vetri, en samsett hlutfall fyrir fyrri helming árs var 102% samanborið við 101,6% á sama tíma í fyrra. Þar munar um einskiptiskostnað vegna skipulagsbreytinga sem framkvæmdar voru í apríl.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Við erum þakklát fyrir viðskiptavini okkar og viljum sýna það í verki. Undanfarna mánuði höfum við þróað nýtt og spennandi vildarkerfi fyrir viðskiptavini okkar. VÍS verður fyrst íslenskra tryggingafélaga til að verðlauna fyrir tryggð viðskiptavina sinna með gagnsæjum hætti. Þannig munu þeir sjá hvernig kjör þeirra og fríðindi breytast m.a. með aukinni viðskiptalengd og fjölda trygginga. Nýja vildarkerfið verður hjartað í samskiptum okkar og mun hjálpa okkur að þekkja enn betur þarfir viðskiptavina okkar og mæta þörfum þeirra. Vildarkerfið verður kynnt til sögunnar á næstunni og ég er viss um að því verði vel tekið hjá viðskiptavinum okkar.“