Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta tölublaði að íslensku lífeyrissjóðirnir gætu tapað 70-80 milljörðum króna á gjaldmiðlaskiptasamninum sínum ef ýtrustu kröfur skilanefnda verða samþykktar fyrir dómstólum. Uppgjör samninganna mun að öllum líkindum lenda fyrir dómstólum í haust.

Kaupþing hóf að kaupa gríðarlegt magn af gjaldeyri á millibankamarkaði í lok árs 2007 og í upphafi árs 2008. Þessi uppkaup leiddu m.a. til þess að krónan féll í mars 2008. Við skýrslutökur hjá rannsóknarnefnd Alþingis var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, spurður um hvernig bankinn hefði byggt upp gjaldmiðlajöfnuð. Hann sagði að það hefði fyrst og fremst verið gert með framvirkum samningum við útflutningsfyrirtæki, lífeyrissjóði og jöklabréfaeigendur. Þessir aðilar tóku því stöðu með krónunni.

Vildarviðskiptavinir á móti

Í skýrslunni kemur fram að Kaupþing var ekki bara að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina og eigenda sinna. Hagnaður myndaðist á þessum enda skiptasamninganna þegar krónan féll. Uppgjör þeirra hefur reyndar ekki farið fram og er í nokkrum tilfellum fyrir dómstólum. Flest félögin sem tóku stöðu á þessari hlið samninganna eru í höndum kröfuhafa sinna eða gjaldþrota.

Í skýrslunni segir að „frá því í nóvember 2007 og fram til janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja“. Ólafur Ólafsson, eigandi Kjalars, var einn af stærstu eigendum Kaupþings. Það var Exista, að mestu í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona, líka. Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, var á meðal stærstu eigenda Glitnis og stór viðskiptavinur Kaupþings.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.