Íransættaði fjárfestirinn Robert Tchenguiz virðist ekki allskostar ánægður með viðskipti sín við lögmannsstofuna Shearman & Sterling í tengslum við málaferlin gegn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar. Hann hefur nú skipt um lögmannsstofu og samið við bandarísku stofuna Stephenson Harwood, að því er fram kemur í netmiðlinum The Lawyer . Breskir fjölmiðlar segja Shearman & Sterling hafa misst spón úr aski sínum enda ekki um neitt smámál að ræða því Tchenguiz krefur efnahagsbrotadeildina um 300 milljónir punda í skaðabætur vegna rannsóknar lögreglunnar á hendur honum. Þetta jafngildir 58 milljörðum íslenskra króna.

Robert Tchenguiz var einn af helstu viðskiptavinum Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi og stjórnarmaður um stund í Exista, helsta eiganda Kaupþings. Þegar bankinn fór á hliðina kom í ljós að hann var helsti lántakandi bankans.

Robert var handtekinn ásamt bróður sínum í maí árið 2011 í tengslum við rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar og færður til yfirheyrslu. Lögreglan lét mál sitt á hendur þeim falla niður nokkru síðar. Robert Tchenguiz fór í kjölfarið í mál við embættið. Talið er að málaferlin muni kosta efnahagsbrotadeildina skildinginn eða 18,5 milljónir punda. Það jafngildir helmingi framlaga til embættisins á ári.