Hæstiréttur komst í gær að niðurstöðu í máli manns sem vildi halda fast í tiltekin ferðafríðindi sem voru í ráðningarsamningi hans við FL Group hf. frá árinu 2005. Maðurinn fór í mál við Icelandair Group á þeim grundvelli að riftun samnings milli félagsins og FL Group hefði ollið honum tjóni, því að þá gæti hann ekki lengur notið þeirra starfskjara að fá ókeypis flugfarmiða.

Í ráðningarsamningnum var mælt fyrir um rétt hans til að fá flugmiða fyrir sig, maka hans og börn að 21 árs aldri án kostnaðar, eða gegn greiðslu þjónustugjalda og skatta. Í samningi milli FL Group og Icelandair Group frá árinu árið 2006 skuldbatt Icelandair Group sig til að taka yfir skyldu FL Group vegna ferðafríðindanna.

Með samningi frá júlí 2006, milli FL Group hf. annars vegar og Icelandair Group hf. og dótturfélaga þess hins vegar, skuldbatt Icelandair Group hf. sig meðal annars til að taka yfir skyldu FL Group hf. vegna ferðafríðindanna. Starfsmaðurinn skrifaði þá undir viðauka við samninginn sem þar sem starfsmennirnir samþykktu að réttur þeirra til ókeypis flugmiða kynni að vera takmarkaðri en ráðningarsamningur þeirra kvæði á um.

Samkomulagi slitið

Samkomulaginu milli Icelandair Group og FL Group var slitið árið 2010 og starfsmanninum þá tilkynnt um það. Starfsmaðurinn sætti sig ekki við það, en hann hélt því fram að samningssamband hefði skapast milli Icelandair Goup og hans og riftun samningsins hefði ollið honum tjóni.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að með undirritun viðaukans þá hefði starfsmaðurinn samþykkt að rétur hans samkvæmt ráðningarsamningi gæti orðið takmarkaðri. Auk þess var ekki samningssamband milli hans og Icelandair Group, en FL Group hafði skrifað undir samninginn við félagið, og gat hann því ekki reist skaðabótakröfu á hendur félaginu.