*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 8. nóvember 2019 16:01

Vildi dómara burt vegna orkupakka

Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson hefur hafnað því að víkja sæti í máli starfsmanns Samgöngustofu gegn íslenska ríkinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson hefur hafnað því að víkja sæti í máli starfsmanns Samgöngustofu gegn íslenska ríkinu. Starfsmaðurinn krafðist þess að Arnar viki sæti vegna skoðana hans á reglum Evrópuréttar.

Í málinu krefst starfsmaðurinn þess að níu vinnuferðir, fjórar í Ísrael og fimm í Sádi-Arabíu, verði viðurkenndar sem vinnutími hjá honum fyrir Samgöngustofu. Samkvæmt úrskurði virðist byggt umtalsvert á reglum Evrópuréttar í málinu.

Starfsmaðurinn lagði fyrir dóm annars vegar viðtal sem Morgunblaðið tók við Arnar Þór í júní á þessu ári og hins vegar blaðagrein sem dómarinn ritaði í blaðið í júlí. Báðar varða þær innleiðingu þriðja orkupakkans. Taldi hann að ummæli í viðtalinu og greininni myndu valda því að unnt væri að draga óhlutlægni Arnars Þórs í efa út frá skoðunum hans á EES-rétti, ESB-rétti og afleiddum gerðum ESB-réttar. Mögulega gæti þurft að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins undir rekstri málsins.

„[Starfsmaðurinn] telur vafa undirorpið að dómari muni nálgast beiðni um ráðgefandi álit af óhlutdrægni. Út frá „skoðunum dómara á dómstólum ESB“ megi búast við að dómari muni ekki fallast á slíka beiðni þar sem hann muni láta skoðanir sínar hafa áhrif á það hvort leita beri ráðgefandi álits,“ segir í málsraka kafla starfsmannsins.

Fór mikinn á fimm síðun

Þessu hafnaði Arnar Þór. Í niðurstöðukafla hans segir meðal annars: „Íslenskur réttur stendur frammi fyrir stórum áskorunum hvað viðvíkur markmiðum EES samningsins um einsleitni við ESB rétt. Fyrir liggur að stofnsáttmálar ESB hafa tekið umtalsverðum breytingum frá því að EES samningurinn tók gildi hérlendis árið 1994, en stjórnskipunarreglur Íslands eru óbreyttar og gera ekki ráð fyrir því framsali ríkisvalds sem EES samstarfið virðist útheimta í æ ríkari mæli. Framsæknar lögskýringar EFTA dómstólsins hafa aukið á þennan vanda, jafnframt því að magna upp lýðræðishalla sem lengi hefur verið tilfinnanlegur í tilviki íslenska ríkisins og veikrar stöðu þess í EES samstarfinu. Þótt stefnandi telji sig geta ályktað að dómari sé „óhress“ með þessa lagaframkvæmd leiðir það ekki til þeirrar röklegu ályktunar að dómara beri, eins og til háttar í máli þessu, að víkja sæti.“

Í niðurstöðu sinni víkur Arnar Þór enn fremur nokkrum orðum að fyrirkomulagi lagasetningar hér á landi. „Þriðji orkupakki ESB er dæmi um það að reglur á mikilvægu réttarsviði, sem geta varðað ríka þjóðarhagsmuni og mæla fyrir um framsal á ríkisvaldi, hafi verið innleiddar í íslenskan rétt með þingsályktunarferli fremur en verklagi lagasetningar, sbr. áðurnefnda 44. gr. stjórnarskrárinnar. Með því móti var sneitt fram hjá mikilvægum stjórnskipulegum varnöglum sem settir voru inn í stjórnarskrá til að tryggja vandaða málsmeðferð í nafni þeirra burðarstoða réttarríkisins sem áður voru nefndar og stjórnarskránni er ætlað að standa vörð um.“

Í úrskurðinum fer Arnar Þór mikinn á rúmum fimm síðum en kemst að þeirri niðurstöðu að endingu að engin af tilvitnuðum ummælum hans séu þess eðlis að draga megi hlutlægni hans í efa. Þess vegna víkur hann ekki sæti.

Athyglisvert er einnig að í niðurstöðukafla Arnars má finna neðanmálsgrein en slíkt er óvanalegt. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 461/2011, sem er þessu máli algjörlega ótengt, segir eftirfarandi: „Það athugast að í málsatvikalýsingu hins áfrýjaða dóms er að finna neðanmálsgrein. Ekki verður séð þörf þessa og er sá háttur ekki í samræmi við áratugalanga venju við samningu dóma hér á landi.“